SÉRSVIÐ


Skaðabætur og vátryggingar

 

Eitt meginviðfangsefni lögmanna eru skaðabætur, skaðabótaábyrgð og vátryggingar af ýmsu tagi.  Krafa um skaðabætur er ekki aðeins ætlað að bæta tjón og varna þeirri háttsemi sem leiddi til tjóns heldur hafa skaðabætur annað og oft vanmetið hlutverk. Annað hlutverk skaðabótaréttar er að veita tjónþola persónulaga uppreisn, þ.e.a.s. viðurkenningu á því að viðkomandi hafi sætt ólögmætri hagsmunaskerðingu eða meiðingum.  Allur málatilbúnaður varðandi skaðabótakröfur er þó vandasamur þar sem gerðar eru ríkar kröfur til tjónþola, að sanna tjón sitt og þá sérstaklega varðandi umfang tjóns.  Framsetning skaðabótakrafna er því vandasamt verkefni sem kallar á reynslu og þekkingu.


Vinnuréttur og starfsmannamál

 

Lögmenn stofunnar hafa langa reynslu á sviði vinnuréttar og starfsmannamála.  Vinnuréttur er eðli máls samkvæmt viðkvæmt viðfangsefni, þá hvort sem hagsmuna er gætt fyrir vinnuveitanda eða launþega en jafnframt kallar slík hagsmunagæsla á skjót viðbrögð þegar álitamál koma upp.  Lögmenn stofunnar veita bæði fyrirtækjum og einstaklingum ráðgjöf og aðstoð á þessu sviði og hafa rekið fjölmörg slík ágreiningsmál fyrir dómstólum.


Stjórnsýsla, opinberir aðilar og skipulagsmál

 

Samskipti borgaranna við opinbera aðila eru bundin fastmótuðum réttarreglum, þá bæði ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar auk þeirra laga sem sett hafa verið á því sviði.  Ríkið sjálft og ýmsir angar þess hafa mikil völd til að kveða á um margháttaðar skyldur og réttindi borgaranna en reglum stjórnsýsluréttar er ætlað að tryggja borgurunum réttláta og sanngjarna málsmeðferð og úrlausn sinna mála.  Oft fara þó mál á þá leið að réttur borgara er fyrir borð borinn og kemur þá til kasta lögmanna að rétta hlut viðkomandi.  Verkefnum stofunnar á sviði hagsmunagæslu gagnvart opinberum aðilum hefur fjölgað jafnt og þétt og þá samhliða stórauknum umsvifum hins opinbera á liðnum árum, ekki síst þegar kemur að hinum ýmsu eftirlitsstofnunum.  Einnig eru einstaklingar og fyrirtæki í auknum mæli meðvitaðri um rétt sinn og þau úrræði sem unnt er að grípa til varðandi brot opinberra aðila á stjórnsýslurétti.


Félagaréttur

 

Stofan hefur á að skipa reynslumiklum lögmönnum á sviði hlutafélagaréttar, gjaldþrotaréttar og fjárhagslegrar endurskipulagningar.  Viðfangsefni lögmanna varðandi þennan málaflokk taka m.a. til eðlis og megin einkenna hlutafélaga, þ.m.t. takmarkaðrar ábyrgðar hluthafa og stjórnenda á skuldbindingum félaga.  Jafnframt snúa verkefnin að stofnun hlutafélaga og réttarsambandi hluthafa innbyrðis, s.s. með gerð hluthafasamninga en einnig að fjármögnun og vernd kröfuhafa.  Önnur viðfangsefni lögmanna stofunnar hafa verið tengd stjórnskipulagi hlutafélaga, þ.m.t. reglna um hluthafafundi, stjórn og framkvæmdastjóra, umboðsreglur og varðandi minnihlutavernd.  Brot á reglum félagaréttar geta bakað stjórnendum og öðrum hagsmunaðilum skaðabótaábyrgð, sem hefur jafnframt reynt á í auknum mæli undanfarin ár.


Fasteignakauparéttur

 

Lögmenn stofunnar hafa rekið fjölmörg mál á sviði fasteignakauparéttar og gætt hagsmuna bæði fyrir kaupendur og seljendur, m.a. vegna galla og greiðsludráttar. Þegar hagsmuna er gætt varðandi fasteignakaup reynir jafnframt á sérfræðiábyrgð þeirra aðila sem milligöngu hafa átt um viðskiptin, þá helst fasteignasala. Á þeim hvíla víðtækar en þó að nokkru leyti ósamhverfar skyldur, sem m.a. getur leitt til þess að bótaréttur stofnast.


Verktakaréttur

 

Lögmenn stofunnar búa yfir reynslu á sviði ráðgjafar við gerð verksamninga en jafnframt við tilboðs- og útboðsgerð, þá m.a. varðandi undirbúning útboðsgagna, ritun verksamninga og við úrlausn ágreiningsmála, hvort sem er með samningaviðræðum eða fyrir dómi. Margvísleg álitaefni koma upp við framkvæmd verksamninga og vegna sérreglna sem gilda á sviði verktakaréttar, svo sem varðandi fresti og tilkynningar. Einnig er mikilvægt að aðilar leiti sér tímanlega lögmannsaðstoðar þar sem töf getur auðveldlega leitt til réttarspjalla.


Nábýlisréttur

 

Nábýlisréttur er ört vaxandi réttarsvið á Íslandi, bæði vegna aukningar á þéttbýli en ekki síður vegna ýmissa réttarbóta er varða grennd og nábýli. Þó eru meginreglur nábýlisréttar að nokkru leyti ólögfestar. Reglur nábýlisréttar setja afnota- og umráðarétti tilteknar skorður m.a. með tilliti til nálægra og velferðar annarra sem þar hafast við. Viðfangsefni nábýlisréttar varðar m.a. mörk leyfilegra og óleyfilegra athafna, þ.e.a.s. að hvaða leyti þarf að þola óþægindi í nábýli og þá þeim úrræðum sem standa aðilum til boða þegar nágrannar hafa brotið gegn grenndarreglum.